Starfsreglur trúnaðarmanna og Trúnaðarmannaráðs SFR

1.gr. 
Trúnaðarmaður skal vera á þeim vinnustöðum þar sem starfa fimm eða fleiri félagsmenn. Einnig skal hver deild samkv. 29. gr. félagslaga kjósa trúnaðarmann.

Á mjög fjölmennum vinnustöðum, þar sem starfshóparnir eru dreifðir og sérgreindir, er stjórn félagsins heimilt að veita leyfi fyrir kosningu fleiri en eins trúnaðarmanns, enda liggi fyrir ósk um það frá starfsfólkinu. Slíkar skiptingar skulu koma skýrt fram í kjörskrá félagsins.

2. gr. 
Trúnaðarmaður er málsvari félagsmanna á sínum vinnustað gagnvart atvinnurekanda annars vegar og stjórn og trúnaðarmannaráði SFR hins vegar.

Hann skal kappkosta að kynna sér vel kjarasamninga starfsmanna, réttindi þeirra og skyldur og hvaðeina sem lýtur að kaupi þeirra og kjörum. 

3. gr. 
Trúnaðarmaður skal gæta þess að samningar og lög um kaup og kjör séu haldnir.

Rísi ágreiningur milli félagsmanna og yfirmanna viðkomandi stofnunar ber trúnaðarmanni að gæta réttar félagsmanna og leita eftir lausn. Náist samkomulag skal trúnaðarmaður gera stjórn félagsins grein fyrir því. Takist samkomulag hins vegar ekki skal trúnaðarmaður vísa málinu til samstarfsnenfdar(sjá grein 11. Í kjarasamningi) og eða stjórnar félagsins, sem tekur málið að sér.

4. gr. 
Trúnaðarmaður skal fylgjast með er nýir starfsmenn hefja störf og kynna sér ráðningarkjör þeirra. Einnig skal hann kynna þeim helstu atriði er varða laun og kjör, svo og félagið.

5. gr. 
Trúnaðarmaður er fulltrúi félagsmanna á sinni stofnun í trúnaðarmannaráði SFR.

Hann skal kalla félagsmenn á stofnuninni til funda þegar sérstök mál liggja fyrir frá félagsstjórn, sem hann þarf að taka afstöðu til í trúnaðarmannaráði. Einnig skal hann boða til slíkra funda, þegar honum eða félagsmönnum finnst tilefni til. Æskilegt er að slíkir fundir séu haldnir öðru hvoru.

6. gr. 
Trúnaðarmaður skal vera stjórn félagsins til aðstoðar í hverju því er lýtur að félagsstarfinu og hagsmunamálum félagsmanna. 

7. gr. 
Trúnaðarmanni er skylt að sitja trúnaðarmannaráðsfundi nema gild forföll hamli og skal hann þá boða varamann í sinn stað.

Hann skal stuðla að því eftir megni að allir félagsmenn mæti á vinnustaðafundi og halda áhuga fyrir félagsstarfinu vakandi og vinna að auknum skilningi á félaginu. 

8. gr. 
Fagdeildum sem stofnaðar eru innan SFR er skylt að kjósa sér trúnaðarmann skv. 29. gr. félagslaga, og á hann sæti í trúnaðarmannaráði SFR.

9. gr. 
Trúnaðarmannaráð mynda trúnaðarmenn og stjórn félagsins.

Hlutverk þess er:

  • Að afgreiða á fundum sínum mál sem eru þess eðlis að ekki þurfi afgreiðslu félagsfundar eða stjórnar SFR.
  • Að vera félagsstjórn til aðstoðar og styrktar í starfi hennar á hverjum tíma.

10. gr. 
Stjórn félagsins boðar til trúnaðarmannaráðsfunda eins oft og þurfa þykir. Einnig skal boða til funda, ef 1/3 trúnaðarmanna óskar þess skriflega og tilgreinir fundarefni.

11. gr. 
Fundum trúnaðarmannaráðs skal stjórnað af formanni félagsins eða eftir tilnefningu með samþykki fundarmanna. Allar tillögur skulu bornar fram skriflega og þær afgreiddar eftir venjulegum fundarsköpum. 

Kosning trúnaðarmanna

12 . gr. 
Kjör trúnaðarmanna skal fara fram í maímánuði á tveggja ára fresti. Áður en kosning fer fram skal fráfarandi trúnaðarmaður skipa þrjá menn í kjörstjórn á viðkomandi vinnustað. Við val kjörstjórnar skal þess gætt eftir föngum að þeir séu fulltrúar mismunandi starfshópa stofnunarinnar.

13. gr. 
Kjörstjórn skipuleggur kosningu trúnaðarmanns og varamanns hans.

Kjörstjórn skal leita eftir tilnefningu félagsmanna um frambjóðendur. Einnig getur hver félagsmaður gert skriflegar tillögur til kjörstjórna.

Félagsmanni er skylt að gefa kost á sér til framboðs sem trúnaðarmaður nema þær ástæður hamli sem samstarfsmenn meta gildar.

Eftir að hafa fengið skriflegt samþykki þeirra sem tilnefndir hafa verið skal kjörstjórn auglýsa kosningu með a.m.k. fimm daga fyrirvara og taka þar fram hverjir eru í framboði.

14. gr. 
Rétt til kosningar trúnaðarmanna eiga fullgildir félagsmenn í SFR.

Félagsmenn, sem skipta um vinnustað um þær mundir sem kjör trúnaðarmanns fer fram, hafa kosningarétt á þeim vinnustað sem þeir starfa á þegar kosning fer fram.

15. gr. 
Við kosningu ritar kjósandi nafn þess sem hann kýs á atkvæðaseðilinn, brýtur hann síðan saman og stingur í kassa sem kjörstjórn hefur komið fyrir í þeim tilgangi. 
Aðeins skal rita nafn eins manns á seðilinn, að öðrum kosti er hann ógildur.
Heimilt er, þar sem því verður við komið, að halda rafræna kosningu. 

16. gr. 
Kjörstjórn sér um talningu atkvæða og er öllum, sem rétt áttu til að kjósa, heimilt að fylgjast með.
Sá sem fær flest atkvæði er rétt kjörinn trúnaðarmaður og sá sem fær næst flest er rétt kjörinn varamaður hans.
Nú fær einn frambjóðandi öll greidd atkvæði og skal hann þá strax skipa varamann.
Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá hlutkesti.

17. gr. 
Nú rís ágreiningur um framkvæmd kosninganna og skal þá vísa málinu til stjórnar SFR sem sker úr. 

18. gr. 
Strax að kosningu lokinni skal kjörstjórn tilkynna skrifstofu félagsins um niðurstöður og skulu allir kjörstjórnarmenn undirrita tilkynninguna. Jafnframt skal gerð grein fyrir því hvernig atkvæði féllu, hve margir voru á kjörskrá og hve margir kusu. 

19. gr. 
Berist skrifstofu félagsins eigi tilkynning um val trúnaðarmanns fyrir 31. maí skal stjórn SFR skipa trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það félögum á vinnustaðnum sbr. 24. grein félagslaga.

Samþykkt á fundi stjórnar SFR 28. ágúst 2007.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun.
Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)