Lög SFR


1. kafli

Nafn og tilgangur

1. gr. - Félagið heitir SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
Félagssvæði þess er landið allt. Félagið skiptist í tvo hluta, opinberan hluta og almennan hluta. Í O-hlutanum eru einstaklingar og stéttarfélög sem aðild eiga á grundvelli 1. til 3. töluliðs 3. gr. laga þessara. Í A-hlutanum eru einstaklingar sem aðildarrétt eiga á grundvelli 4 og 5. töluliðs 3. gr. laga þessara. Lög nr. 94/1986 gilda um starfsemi O-hluta félagsins við gerð kjarasamninga en lög nr. 80/1938 gilda um kjarasamningsgerð A-hluta.

2. gr. - Tilgangur félagsins er:
1. Að vinna að hagsmunamálum félagsmanna og standa vörð um réttindi þeirra og beita sér gegn hvers konar misrétti í launagreiðslum og starfskjörum.
2. Að fara með fyrirsvar einstaklinga, sem aðild eiga að félaginu, við gerð kjarasamninga.
3. Að fara með fyrirsvar einstakra stéttarfélaga, sem aðild eiga að félaginu, við gerð kjarasamninga, enda hafi SFR verið veitt til þess umboð.

2. kafli
Aðild að félaginu og úrsögn

3. gr. - Rétt til inngöngu í félagið eiga:
1. Einstaklingar í þjónustu ríkisins, sem eiga ekki aðild að öðru stéttarfélagi, sem fer með samningsaðild fyrir viðkomandi starfsmann.
2. Stéttarfélög starfsmanna, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og stéttarfélög sem gera kjarasamninga á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Allir meðlimir stéttarfélaga, sem aðild eiga að SFR, teljast félagsmenn.
3. Einstaklingar, sem starfa hjá sjálfseignarstofnunum skv. 2. gr. laga nr. 94/1986.
4. Einstaklingar sem starfa hjá stofnunum og fyrirtækjum sem starfa í almannaþágu.
5. Einstaklingar sem starfa utan almannaþjónustu og eiga ekki aðild að öðru stéttarfélagi.
6. Félagsmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

4. gr. - Gangi félagi úr þjónustu ríkisins eða stofnana eða félaga sem falla undir ákvæði 3. tl. 3. gr. eða hætti störfum hjá atvinnurekanda skv. 4. og 5. tl. 3. gr. telst hann ekki lengur í félaginu.
Félagsmaður, sem verður atvinnulaus, á rétt til áframhaldandi félagsaðildar meðan hann er á skrá sem atvinnulaus, enda eigi hann ekki aðild að öðru stéttarfélagi. Atvinnulausir greiði félagsgjald, en heimilt er stjórn félagsins að fella það niður að hluta eða öllu leyti.
Rísi deila um lögmæti uppsagnar félagsmanns úr starfi, telst hann þó félagsmaður, þar til hún er til lykta leidd.
Félagsmenn, sem ráðnir eru til starfa hjá félaginu eða heildarsamtökum opinberra starfsmanna, halda ennfremur óskertum félagsréttindum meðan þeir gegna slíku starfi.

5. gr.- Einstaklingur, sem uppfyllir eitthvert skilyrða 3. gr. til þess að geta orðið félagsmaður og greiðir félagsgjald til félagsins, telst þar með félagsmaður. Stjórn félagsins skal kynna nýjum félagsmanni réttindi hans og skyldur í félaginu.

Umsókn stéttarfélags um aðild að félaginu skulu fylgja eftirtalin gögn:
1. Eintak af lögum félagsins.
2. Félagsmannatal.
3. Nöfn stjórnarmanna og aðrar þær upplýsingar sem félagið kann að óska eftir. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um inntöku stéttarfélaga, en leita skal staðfestingar næsta aðalfundar.
Formaður stéttarfélagsins er fulltrúi þess í Trúnaðarmannaráði og Félagsráði SFR. Félagsgjald skiptist milli viðkomandi stéttarfélags og SFR, samkvæmt samkomulagi viðkomandi stéttarfélags og stjórnar SFR.

6. gr. - Halda skal aukaskrá yfir einstaklinga, sem ekki eru félagsmenn, en greiða gjald til félagsins skv. 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Félagsmaður, sem ekki greiðir félagsgjöld skv. lögum félagsins, skal færður á aukaskrá með ákvörðun stjórnar félagsins, enda hafi vanskil staðið a.m.k. 3 mánuði.
Þeir sem eru á aukaskrá njóta hvorki atkvæðisréttar né annarra félagsréttinda fyrr en viku eftir að þeir hafa greitt skuld sína við félagið.
Félagsstjórn er heimilt að undanþiggja menn félagsgjöldum, ef veikindi eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

7. gr. - Allir þeir, sem aðild eiga að félaginu, eru skyldugir að hlýða lögum þess. Þyki sannað, að félagsmaður eða aðildarfélag hafi framið alvarlegt brot á lögum þessum eða vísvitandi valdið félaginu tjóni á annan hátt, getur aðalfundur vikið viðkomandi úr félaginu, en til þess þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

8. gr. - Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast félagsstjórn, og telst viðkomandi genginn úr félaginu þremur mánuðum eftir að úrsögn barst félagsstjórn, enda sé hann skuldlaus við félagið. Tillaga stéttarfélags um úrsögn úr SFR skal rædd á lögmætum aðalfundi viðkomandi félags og hennar getið í fundarboði.
Gera skal stjórn SFR viðvart um tillöguna með minnst 4 vikna fyrirvara og skal fulltrúi stjórnar ávallt sitja fundi félags, þegar fjallað er um úrsögn úr SFR.
Úrsagnartillaga skal afgreidd með allsherjaratkvæðagreiðslu, þó ekki fyrr en 4 vikum eftir aðalfund. Samþykki a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna á aðalfundi þarf til þess að tillagan gangi áfram til allsherjaratkvæðagreiðslu.
Úrsögn telst samþykkt ef a.m.k. helmingur félagsmanna er henni fylgjandi eða 2/3 hlutar þeirra, sem þátt taka í allsherjaratkvæðagreiðslunni. Félagi telst hafa tekið þátt í allsherjaratkvæðagreiðslum er hann skilar kjörseðli.
Kjörstjórn SFR sér um atkvæðagreiðslu um úrsögn, sbr. 10. grein.
Úrsögn tekur gildi frá lokum þess árs, er hún hlýtur samþykki. Félag, sem segir sig úr SFR, á ekki tilkall til sjóða eða annarra eigna SFR.

3. kafli
Stjórn og stjórnarkosning

9. gr. - Stjórn félagsins skipa ellefu menn, formaður og tíu meðstjórnendur, er skulu kosnir úr hópi fullgildra félagsmanna til þriggja ára í senn.
Formaður skal kosinn sérstaklega en tíu meðstjórnendur skulu kosnir í einu lagi.
Stjórnin kýs úr sínum hópi varaformann og ritara.
Meðstjórnendum er ekki heimilt að sitja samfellt í stjórn lengur en þrjú kjörtímabil (9 ár).
Ekki má sami maður gegna störfum formanns lengur en fimm kjörtímabil (15 ár) samfellt. Þótt formaður hafi setið í stjórn félagsins hefur það engin áhrif þann tíma sem honum er heimilt að gegna formennsku.

10. gr. - Kjör stjórnar fer fram við allsherjaratkvæðagreiðslu. Kjörstjórn skal senda félagsmönnum kjörgögn. Atkvæðagreiðsla skal fara fram með rafrænum hætti ef því verður við komið, annars skriflegum og þá skal hafa hliðsjón af því sem tíðkast við utankjörfundarkosningu til Alþingis varðandi frágang kjörgagna. Kosning skal standa yfir a.m.k. 10 daga ef hún er rafræn en 15 daga annars og skal henni lokið sólarhring fyrir aðalfund. Atkvæði, sem berast kjörstjórn að þeim tíma liðnum, skulu ógild.

Kjörseðill skal vera tvískiptur þannig:
1. hluti fyrir formannskjör
2. hluti fyrir kjör meðstjórnenda
Nöfnum frambjóðenda skal raðað í stafrófsröð í hverjum hluta. Tilgreina skal vinnustað frambjóðenda og starfsheiti. Komi ekki fram tillögur um fleiri menn í hvert stjórnarsæti en kjósa skal eru þeir sjálfkjörnir.

11. gr. – Félagsráð skal kjósa uppstillinganefnd sem skipuð er 5 aðalmönnum og tveimur til vara. Stjórn félagsins skal undirbúa tillögu um uppstillinganefndina sem lögð er fyrir félagsráð
Hlutverk uppstillinganefndar er eftirfarandi:
Gera tillögu um formann og stjórn félagsins. Einnig skal hún gera tillögur um stjórn orlofssjóðs, stjórn starfsmenntunarsjóðs, stjórn styrktar- og sjúkrasjóðs, stjórn vinnudeilusjóðs, kjörstjórn, skoðunarmenn reikninga og endurskoðendur.
Uppstillingarnefnd skal leggja tillögur sínar fyrir trúnaðarmannaráð, eigi síðar en 40 sólarhringum fyrir aðalfund þegar stjórn félagsins er kosin. Trúnaðarmannaráð skal afgreiða tillögur uppstillingarnefndar og verða þær tillögur ráðsins.
Heimilt er 50 eða fleiri félagsmönnum að gera tillögur um einn eða fleiri stjórnarmenn. Skulu þær vera skriflegar og berast stjórn félagsins a.m.k. 25 sólarhringum fyrir aðalfund. Öllum tillögum skal fylgja skriflegt samþykki þeirra sem tillaga er gerð um.Vanti samþykki aðila telst tillaga um hann ógild. Tillögum skulu fylgja upplýsingar um vinnustað, kennitala og heimilisfang. Enginn getur verið í framboði nema sem formaður eða meðstjórnandi.

4. kafli
Aðalfundur

12. gr.
- Aðalfundur skal auglýstur á tryggilegan hátt með a.m.k. 35 sólarhringa fyrirvara. Jafnframt skal auglýst eftir tillögum um stjórnarmenn þegar stjórnarkjör fer fram, sbr. ákv. 9. og 10. gr.

13. gr. - Aðalfund skal halda fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi, skal boða til framhaldsaðalfundar.
Þessi eru sérstök verkefni aðalfunda, nema á því ári sem ekki fer fram stjórnarkjör, falla af dagskrá fundarins töluliðir 4, 6 og 8.
1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins á síðastliðnu ári.
2. Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár.
3. Tekin ákvörðun um tillögur til lagabreytinga og breytinga á reglum sjóða.
4. Úrslit allsherjaratkvæðagreiðslu í stjórnarkjöri kynnt.
5. Kosinn löggiltur endurskoðandi félagsreikninga, tveir skoðunarmenn og tveir til vara.
6. Kosnir fimm menn í kjörstjórn og jafnmargir til vara.
7. Ákveðið árgjald félagsmanna og skipting þess milli sjóða.
8. Kosið í stjórn: orlofssjóðs, vinnudeilusjóðs, starfsmenntunarsjóðs og styrktar- og sjúkrasjóðs samkv. reglum þeirra.
9. Fjárhagsáætlun næsta árs lögð fram til samþykktar.
10. Ályktanir aðalfundar afgreiddar.
11. Önnur mál.

14. gr. - Kjörstjórn skipa fimm menn og jafnmargir til vara og skal kosin úr hópi fullgildra félagsmanna til þriggja ára á þeim aðalfundi, þegar stjórnarkjör fer fram.
Kjörstjórn skal ásamt stjórn félagsins hafa á hendi undirbúning og framkvæmd kosningarinnar. Sé kjörstjórnarmaður í framboði við stjórnarkjör, skal hann víkja sæti fyrir varamanni. Sá varamaður, sem flest atkvæði hefur fengið, tekur fyrsta sæti sem losnar í kjörstjórn, þá sá sem næstflest atkvæði hefur fengið og þannig áfram.

15. gr. - Stjórn félagsins lætur gera kjörskrá um alla félagsmenn er atkvæðisréttar njóta, sbr. 6.gr., og skal hún liggja frammi í skrifstofu félagsins frá því að aðalfundur er auglýstur.
Allar kærur út af kjörskrá skal kjörstjórn úrskurða. Kærufrestur rennur út sólarhring fyrir aðalfund.
Í kjörskrá skulu skráðar upplýsingar um kennitölu og heimilisfang félagsmanna.

16. gr. - Félagsmenn hafa frjálst val að kjósa þá menn, sem í kjöri eru, og skulu þeir gera það á þann hátt að merkja við fyrir framan nafn þess er þeir kjósa. Öll önnur merki eða áritanir ógilda kjörseðilinn.
Kjósa ber einn mann við formannskjör, tíu menn við kjör meðstjórnanda. Sé ekki kosin rétt tala stjórnarmanna í einhverjum hluta kjörseðils er hann ógildur að því er þann hluta varðar.
Kjörstjórn sker úr um gildi vafaatkvæða.

17. gr. - Kjörstjórn ákveður, hvar og hvenær talning atkvæða skal fara fram. Frambjóðendur við formannskjör eða umboðsmenn þeirra mega vera viðstaddir talningu.

18. gr. - Kjörstjórn skal halda gjörðabók og færa í hana allt sem kosningu varðar, undirbúning, framkvæmd og niðurstöður.

5. kafli
Stjórnarfundir og stjórnarstörf

19. gr. - Formaður skal boða til funda og gegna öðrum venjulegum formannsstörfum. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Ritari sér um að fundargerðir séu ritaðar og varðveittar með öruggum hætti fyrir stjórnar-, trúnaðarmannaráðs- og félagsfundi.
Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda.
Stjórnin vinnur að stefnumótun félagsins og stuðlar að framgangi mála sem félagið hefur sett sér. Stjórnin sér um að um að skipulag og starfsemi félagsins sé í samræmi við lög þess. Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er lúta að fjármálum og fjárhagsskuldbindingum þess.
Stjórnin skal yfirfara og samþykkja reikninga félagsins með áritun.
Stjórnin felur formanni / framkvæmdastjóra daglegan rekstur félagsins og ræður hann starfsmenn félagsins og semur um kjör þeirra. Stjórnin ákveður laun formanns / framkvæmdastjóra.
Stjórnarfundir eru lögmætir, ef meirihluti stjórnar mætir. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum.
Stéttarfélag, sem aðild á að SFR og ekki á úr hópi félagsmanna sinna kjörinn fulltrúa í stjórn, á rétt á að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti, þegar mál er á dagskrá sem félagið varðar.

6. kafli
Fjármál

20. gr.
- Árgjald félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi, og fellur það þá þegar í gjalddaga. Heimilt er að láta draga árgjaldið frá launum félagsmanna, í einu eða mörgu lagi, eftir því hvort hentugra þykir.
Sjóði félagsins skal ávaxta í lánastofnunum.
Úr félagssjóði skal greiða nauðsynlegan kostnað vegna starfsemi félagsins.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins 10 sólarhringum fyrir aðalfund.
Tillögur sem fela í sér breytingar á útgjöldum fyrir félagsmenn er einungis heimilt að afgreiða á aðalfundi félagsins að undangenginni kynningu á tillögunni í fundarboði.
Auk félagssjóðs hefur SFR orlofssjóð, vinnudeilusjóð, styrktar- og sjúkrasjóð og starfsmenntunarsjóð. Um starfsemi sjóðanna skal setja reglur sem staðfestar skulu á aðalfundi SFR.

7. kafli
Félagsfundir

21. gr.
- Félagsfundi skal boða svo oft sem þurfa þykir og er félagsstjórn skylt að boða þá ef 50 fullgildir félagsmenn krefjast þess og tilgreina fundarefni.
Félagsfundi skal boða með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara með auglýsingu í dagblöðum eða útvarpi og með auglýsingu á vinnustöðum þar sem því verður við komið.
Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
22. gr. - Fundum skal stjórnað eftir fundarsköpum, er félagið setur. Ef ágreiningur verður um fundarsköp, úrskurðar fundarstjóri, en skotið getur hann ágreiningsefni undir atkvæði fundarmanna.
Afl atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum, nema þar sem öðru vísi kann að verða ákveðið í lögum þessum.

8. Kafli
Fulltrúar á þing BSRB

23. gr.
- Kjör fulltrúa á þing BSRB skal fara fram á trúnaðarmannaráðsfundi.

9. kafli
Trúnaðarmannaráð

24. gr.
- Á hverjum vinnustað, þar sem starfa 5 eða fleiri félagsmenn, skal í maí annað hvert ár (oddatöluár) kjósa trúnaðarmann til tveggja ára, er síðan sé tilkynnt félagsstjórn. Velja má annan til vara.
Berist eigi tilkynning um val fyrir 31. maí, skal félagsstjórn skipa trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það félögum á vinnustaðnum.
Félagsstjórn setur trúnaðarmönnum starfsreglur.

25. gr. - Trúnaðarmenn þeir, sem eru kjörnir eða skipaðir samkvæmt 24 gr. eða kjörnir samkvæmt ákvæðum 30. greinar, mynda ásamt stjórn trúnaðarmannaráð. Hlutverk þess er að fjalla um þau málefni á fundum sínum sem snerta vinnu og aðstöðu trúnaðarmanna í störfum sínum ásamt fræðslu um þau þjóðfélagsmál sem hæst ber hverju sinni og að gagni koma í störfum trúnaðarmanna. Einnig er það hlutverk trúnaðarmannaráðs að annast undirbúning kjarasamninga og kjósa samninganefndir. Fundi trúnaðarmannaráðs skal að jafnaði boða með sannanlegum hætti með þriggja daga fyrirvara og tilgreina fundarefni.

26. gr. - Aðildarfélag getur hvenær sem er afturkallað umboð til SFR til gerðar kjarasamnings með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara.
Þegar 3 mánuðir eru til loka samningstíma, skal liggja fyrir hvort SFR hefur umboð til gerðar kjarasamnings og verður umboð ekki afturkallað, meðan á samningaviðræðum stendur um gerð nýs samnings.

10. kafli
Félagsráð

27. gr.
– Félagsráð mynda stjórn félagsins, formenn fagfélaga/deilda/sjóða og stéttarfélaga innan SFR auk 20 fulltrúa sem kosnir eru af trúnaðarmannaráði á fyrsta trúnaðarmannaráðsfundi að hausti eftir kosningu á oddatöluári. Við kosningu fulltrúa í félagsráð skal tryggt að lágmarki sé einn fulltrúi frá eftirtöldum landshlutum: Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi Vestra, Norðurlandi Eystra, Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi.
Formaður SFR er jafnframt formaður félagsráðs. Heimilt er, ef formaður fagfélags/deildar er ekki félagsmaður SFR, að viðkomandi fagfélag/deild tilnefni annan fulltrúa í félagsráð, enda sé viðkomandi félagsmaður SFR. Trúnaðarmannaráð skal setja nánari reglur um framkvæmd kosninga í félagsráð.

28. gr. – Hlutverk félagsráðs er að taka fyrir og afgreiða mál sem eru þess eðlis að ekki þurfi afgreiðslu félagsfundar eða stjórnar SFR. Félagsráð skal vinna að stefnumótun fyrir félagið í samráði við stjórn og annast undirbúning fyrir aðalfund félagsins, þar á meðal að kjósa uppstillinganefnd og laganefnd þegar það á við. Á fundum félagsráðs skal m.a. gerð grein fyrir fjárhagsstöðu sjóða félagsins og lögð fram skýrsla yfir starfsemina. Félagsráð skal ákveða hvaða fastanefndir skulu starfa og setja þeim reglur og kjósa í þær. Félagsráð getur einnig stofnað aðrar nefndir eða vinnuhópa innan félagsins í kringum sérstök verkefni.

29. gr. – Fundir félagsráðs skulu vera opnir félagsmönnum SFR og skulu þeir hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt. Félagsráð skal kallað saman að lágmarki tvisvar á ári í janúar/febrúar og september.
Málefni sem tekin eru fyrir á janúarfundinum eru: Stefnumótun félagsins og undirbúningur aðalfundar, svo sem ályktanir, kynning á tillögum uppstillinganefndar og laganefndar þegar það á við.
Málefni sem tekin eru fyrir á septemberfundinum eru: Kosning uppstillinganefndar og laganefndar (þegar það á við), fjárhagsstaða félagsins kynnt ásamt skýrslu um starfsemina. Kosning í fastanefndir félagsins það ár sem kjör til stjórnar fer fram samkvæmt 9. gr.

11. kafli
Deildaskipting

30. gr.
- Heimilt er að stofna sérstakar deildir innan félagsins með þeim, er vinna skyld og sams konar störf, eða störf, sem krefjast hliðstæðrar menntunar. Hver slíkra deilda hefur rétt og skyldu til að velja fyrir sína hönd einn fulltrúa í trúnaðarmannaráð. Einnig skulu formenn deilda eiga sæti í félagsráði.
Reglur fyrir deildir þessar öðlast ekki gildi fyrir en félagsstjórn hefur staðfest þær, en hlutverk þeirra skal vera:
1. að vinna því, að hver félagsmaður, sem til þess hefur rétt, sé félagsbundinn.
2. að fylgjast með því, að samningar séu haldnir og réttindi starfsmanna í heiðri höfð,og reyna að leysa þau ágreiningsmál sem upp kunna að koma og bundin eru við deildarmenn.
3. að veita félagsstjórn aðstoð við söfnun gagna og upplýsinga og annað er hún kann að óska eftir.
4. að efla gagnkvæman skilning og einingu og stuðla að fræðslu- og menningarstarfi innanvébanda deildarinnar.

Háskóladeil
d
Starfrækja skal deild starfsmanna með háskólamenntun. Háskóladeild skipa einstaklingar sem lokið hafa að minnsta kosti Bachelor gráðu eða sambærilegt og uppfylla eitthvert skilyrða 3. gr.
Deildin setur sér starfsreglur sem öðlast gildi er félagsstjórn hefur staðfest þær. Í þeim skal m.a. kveðið á um tilgang deildarinnar, sem er að fjalla um hagsmuna- og sérmál er varða réttindi og kjör félagsmanna með háskólamenntun. Stjórn Háskóladeildar SFR skal heimilt að kjósa úr sínum hópi fulltrúa og annan til vara sem eiga rétt til setu í trúnaðarmannaráði félagsins og félagsráði. Stjórn deildarinnar skal skila ársskýrslu til stjórnar SFR á hverju ári.

Lífeyrisdeild
Félagsmenn, sem láta af störfum vegna aldurs eða örorku og launaðir eru samkvæmt launastiga SFR, hafa heimild til að starfrækja innan félagsins deild lífeyrisþega.
Deildin setur sér starfsreglur sem öðlast gildi er félagsstjórn hefur staðfest þær, sbr. ákvæði 1. mgr. Í þeim skal m.a. kveðið á um tilgang deildarinnar, sem er að fjalla um sérmál er varða réttindi lífeyrisþega og hagsmuni, svo og almennt félagsstarf og kynningu.
Stjórn lífeyrisdeildar SFR skal heimilt að kjósa úr sínum hópi fulltrúa og annan til vara sem eiga rétt til setu í trúnaðarmannaráði félagsins svo, og almennum félagsfundum SFR, með málfrelsi og tillögurétti.
Formaður deildar lífeyrisþega skal boðaður á stjórnarfundi SFR, þegar á dagskrá eru mál sem varða málefni lífeyrisþega.

12. kafli
Ákvæði vegna laga um kjarasamninga

31. gr.
- Trúnaðarmannaráð kýs 11 fulltrúa í samninganefnd sem fer með fyrirsvar félagsins við gerð kjarasamninga við ríkið. Í samninganefnd eigi jafnframt sæti formaður SFR, sem er formaður samninganefndar, og varaformaður félagsins. Við kjör samninganefndar skal þess gætt að í nefndina séu kjörnir fulltrúar ólíkra starfsgreina innan félagsins. Samninganefnd er heimilt að kjósa undirnefndir til að vinna að einstökum verkefnum við undirbúning samninga og samningagerð eftir því sem ástæður þykja. Val annarra samninganefnda gagnvart öðrum samningsaðilum SFR skal gert í samráði við viðkomandi starfshóp á hverri samningseiningu.

32. gr. - Tilkynna skal viðsemjendum eigi síðar en við upphaf samningaviðræðna hverjir skipi samninganefndir félagsins.

33. gr. - Trúnaðarmannaráð tekur ákvörðun um uppsögn kjarasamninga. Uppsögn skal tilkynna í samræmi við 2. kafla laga 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða skv. 6. gr.1.nr 80/1938, eftir því sem við á. Sömu aðilar taka ákvörðun um að boða til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfall. Um þá atkvæðagreiðslu fer skv. 15. gr. þeirra laga.

34. gr. - Samkomulag um kjarasamning skal samninganefnd félagsins undirrita með fyrirvara. Um endanlegt samþykki þeirra félagsmanna, sem kjarasamningurinn tekur til, skal viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu eins fljótt og kostur er.
Við breytingu á kjarasamningi á samningstímabilinu er ekki skylt að viðhafa atkvæðagreiðslu.

35. gr. - Samninganefnd tekur ákvörðun um frestun eða afboðun verkfalls eftir undirritun kjarasamnings.

36. gr. - Félagsmenn stéttarfélaga, sem ekki hafa veitt félaginu umboð til gerðar kjarasamnings, fjalla á engan hátt um kjarasamninga félagsins né taka þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga eða verkfallsboðun.

37. gr.
- Stéttarfélag, sem falið hefur SFR umboð til gerðar kjarasamnings, skal tryggt sæti í samninganefnd félagsins. Sé umboð um gerð kjarasamnings afturkallað, sbr. 26. gr., víkja fulltrúar þess úr samninganefnd.
Fari SFR ekki með umboð til gerðar kjarasamnings fyrir aðildarfélag eru trúnaðarmenn þess eigi kjörgengir né hafa kosningarétt til kjörs í samninganefnd.

13. kafli
Ýmis ákvæði

38. gr.
- Heimilt er að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu um stærri mál og skal þá haga henni þannig að kjósandi þurfi aðeins að krossa við já eða nei. Skal atkvæðagreiðslan fara fram skriflega á fundi að loknum umræðum en auk þess séu greidd atkvæði utanfundar með hliðstæðum skilyrðum og sett eru um stjórnarkjör.
Kjörstjórn sér ásamt stjórn félagsins um undirbúning og framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslna, og skal hún sjá um að þær fari fram á tryggilegan hátt.
Kjörstjórn staðfestir kjörskrá og ákveður hverju sinni meðferð kjörgagna og fyrirkomulag á talningu atkvæða.

39. gr. - Komi fram tillaga um að leysa félagið upp, verður hún eigi tekin til greina nema hún sé studd hið minnsta 1/4 félagsmanna, og skal þá höfð um hana allsherjaratkvæðagreiðsla. Tillagan telst því aðeins samþykkt, að hún hljóti 2/3 greiddra atkvæða.
Verði félagið leyst upp skulu gerðarbækur þess og skjöl ásamt öðrum eignum afhent BSRB til fullrar eignar og umráða.

40. gr.
- Við framkvæmd og túlkun laganna skal haft í huga að innan félagsins eru annars vegar félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningum sem gerðir eru skv. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og hins vegar félagsmenn sem starfa á almennum vinnumarkaði þar sem um gerð kjarasamninga gilda lög nr. 80/1938. Ákvarðanir um kaup og kjör sem varða annan hópinn sérstaklega skulu einungis bornar undir hann.

41. gr.
- Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda hafi tillögur þar að lútandi borist til félagsstjórnar áður en aðalfundur er auglýstur og þeirra getið í fundarboði. Tillögur til lagabreytinga skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins 10 sólarhringum fyrir aðalfund
Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega fram komnar tillögur til lagabreytinga, enda feli breytingartillögur ekki í sér óskyld efni við upprunalegu tillögurnar.
Til að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða. Um leið og samþykkt er breyting á lögum skal ákveðið með fundarsamþykkt, hvenær breytingin tekur gildi.

Félaginu voru upphaflega sett lög á framhaldsstofnfundi 22. nóv. 1939. Lögunum hefur verið breytt á aðalfundum félagsins 1943, 1950, 1952, 1964, 1975, 1977, 1980, 1987, 1991, 1993, 1994, 1996, 2000, 2004, 2007, 2011, 2012, 2014, 2016, 2017 og 2019.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun.
Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)