Ný og öflug Lífeyrisdeild Sameykis

Afar fjölmennur stofnfundur Lífeyrisdeildar Sameykis var haldinn 11. apríl síðastliðinn en á fundinn komu rúmlega 80 manns. Þar voru lagðar fram starfsreglur deildarinnar til samþykktar og kosin var 7 manna stjórn og formaður. Ingibjörg Óskarsdóttir bauð sig ein fram til formanns og var hún einróma kjörin með lófaklappi. Átta manns buðu sig fram sem meðstjórnendur og flest atkvæði hlutu þau Guðrún Árnadóttir, Bryndís Þorsteinsdóttir, Sigurjón Gunnarsson, Sigurður Helgason, Lilja Sörladóttir og Guðjón Magnússon og eru þau því löglega kjörin stjórn deildarinnar.


Garðar Hilmarsson varaformaður ávarpaði fundinn þar sem hann  fagnaði  stofnun deildarinnar. Þá voru drög að starfsreglum lögð fyrir og hlutu þau miklar og góðar umræður. Nokkrar breytingar voru gerðar og þær síðan samþykktar. Starfsreglurnar hafa einnig verðið lagðar fyrir stjórn Sameykis til samþykktar. Að lokum voru nýjar reglur um orlofsmál lífeyrisdeildarinnar og símenntunarsjóð kynntar. Gagnrýni kom fram á reglur um réttindi lífeyrisdeildar í orlofssjóð og var nýkjörinni stjórn falið að vinna að því máli áfram með stjórn Orlofssjóðs Sameykis. 
Í lok fundar kynnti nýkjörinn formaður deildarinnar Ingibjörg Óskarsdóttir gönguklúbbinn Grjótharðir göngugarpar en hægt er að kynna sér hann frekar á facebook síðu undir sama nafni. 


Þeir félagar sem áður voru skráðir í lífeyrisdeild SFR eða eftirlaunadeild St.Rv. eru sjálfkrafa orðnir félagar í lífeyrisdeild Sameykis. Nýjum félögum er bent á að skrá sig á www.sfr.is og www.strv.is eða hafa samband við skrifstofu.

 

Sumarferðir lífeyrisdeildar

Sumarferð félaga í lífeyrisdeild / eftirlaunadeild Sameykis verður á sínum stað í sumar. Að þessu sinni verða farnar tvær ferðir í Hvalfjörð og Borgarfjörð. Ferðirnar eru alveg eins og í báðum ferðum verðum við með tvær stórar rútur. Fyrri ferðin er miðvikudaginn 26. og hin fimmtudaginn 27. júní. Þetta er gert til þess að fleiri geta komið með og því er ekki leyfilegt að skrá sig báða dagana.

Blað lífeyrisdeildar ætti að vera að detta inn um lúguna hjá flestum sem þar eru skráðir og þar má finna ítarlega lýsingu á ferðinni. Verðið er 6000 kr. og innifalið í því er fararstjórn, léttur hádegisverður, kaffihressing og kvöldverður.

Nú þarf að greiða fyrir ferðina um leið og fólk skráir sig og það er hægt að gera í gegnum orlofsvefinn eða með því að smella hér. Frestur til að skrá sig og greiða er til 19. júní 2019.

Eins og áður er leyfilegt að bjóða með einum gesti, gestur utan félags getur þó ekki komið með nema með félagsmanni.

Hvalfjörður og Borgarfjörður
Farin verður dagsferð í Hvalfjörð og Borgarfjörð og hægt er að velja um tvær dagsetningar, þ.e. 26. eða 27. júní. Ekki er hægt að skrá sig nema annan daginn þar sem um er að ræða nákvæmlega samskonar ferðir.

Þetta fyrirkomulag er haft á til þess að hægt sé að gefa fleirum kost á að fara í sumarferðina.
Athugið að nú þarf að greiða ferðina fyrir fram í gegnum orlofsvefinn þ.e. í síðasta lagi 19. júní á skrifstofu félagsins eða s. 525 8330.
Lagt verður af stað frá Grettisgötu 89 kl. 9:00 að morgni stundvíslega. Ekið verður sem leið liggur út úr bænum og inn í Hvalfjörð. Fyrsta stoppið okkar verður Meðalfellsvatn en síðan verður haldið í Hvalstöðina. Þar munum við stoppa og fræðast um sögu staðarins, en við munum láta veðrið ráða því svolítið hversu lengi við stoppum á hverjum stað.

Næst liggur leiðin í Hernámssafnið að Hlöðum, þar munum við skoða safnið og snæða hádegisverð sem er innifalinn í verði ferðarinnar. Við munum einnig skoða Saurbæjarkirkju sem er þar skammt frá.

Við ökum upp úr Hvalfirðinum yfir Dragháls sem leið liggur fram hjá Skorradalsvatni og gegnum Lundarreykjadal til Reykholts í Borgarfirði með stuttu stoppi við Deildartunguhver. Í Reykholti stoppum við góða stund og skoðum söguslóðir Snorra Sturlusonar og fáum kaffisopa.
Síðdegis munum við síðan aka í rólegheitum að Hótel Hamri í Borgarfirði þar sem boðið verður upp á kvöldverð.
Komið verður til baka á Grettisgötu 89 kl. 21:00.

 

Starf Lífeyrisdeildar SFR - LSFR

 
Innan SFR er sérstök deild fyrir þá sem lokið hafa starfsævinni og vilja áfram vera virkir félagar.
Þeir sem skrá sig í deildina:
  • Geta tekið þátt í fjölbreyttu starfi LSFR sem meðal annars heldur á hverju ári sviðamessu, jólahátíðargleði, þorrablót, aðalfund og fer síðan í sumarferð á jónsmessu. 
  • Fá sent heim Blað stéttarfélaganna og Fréttabréf LSFR.
  • Geta sótt „Gott að vita“ námskeiðin sem SFR heldur.
  • Hafa fullan aðgang að orlofshúsum SFR á veturna á sérkjörum og rétt á að sækja um eitt orlofshús á sumarúthlutunartíma.
  • Geta sótt um styrk í Símenntunarsjóð LSFR. 
  • Geta tekið þátt í Gönguhóp LSFR

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun.
Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)