Stofnun Háskóladeildar SFR

Um þrjátíu félagsmenn úr SFR mættu á stofnfund háskóladeildar félagsins sem haldinn var 17. nóvember 2016. Árni Stefán Jónsson ávarpaði fundinn og óskaði fundarmönnum meðal annars til hamingju með daginn, enda stofnfundurinn haldinn á 77 ára afmælisdegi SFR. Þá greindu Bryndís Theodórsdóttir varaformaður og Alma Lísa Jóhannsdóttir sérfræðingur á kjara- og félagssviði SFR frá undirbúningi að stofnun deildarinnar, viðfangsefnum hennar og markmiðum.

Á síðasta aðalfundi SFR, sem haldinn var í mars 2016, var samþykkt að stofnuð yrði deild fyrir háskólamenntaða félagsmenn innan SFR. Í kjölfar aðalfundarins ákvað stjórn félagsins að skipa undirbúningshóp vegna stofnunar háskóladeildar. Undirbúningshópurinn hélt vel heppnaðan vinnufund fyrir stofnun deildarinnar í byrjun október þar sem tilgangur og væntingar til deildarinnar voru m.a. ræddar.


Í kjölfar hans var haldinn afar vel heppnaður stofnfundar Háskóladeildar þar sem stjórn deildarinnar var kosin og samþykktir hennar afgreiddar. Guðrún Kristín Svavarsdóttir var kjörin formaður deildarinnar.

Mikil ánægja kom fram bæði meðal fundarmanna á undirbúningsfundinum og stofnfundinum, enda hafa háskólamenn lengi beðið eftir samastað innan félagsins. Háskólamenntaðir félagsmenn eru nú á bilinu 11-15% félagsmanna og er það von SFR að stofnun Háskóladeildarinnar muni verða til þess að styrkja og stækka þann hóp.

Í samþykktum deildarinnar sem samþykktar voru á stofnfundinum kemur meðal annars fram að viðfangsefni deildarinnar skulu m.a. vera að gæta hagsmuna félagsmanna á vinnumarkaði og vera málssvari þeirra, halda uppi kynningar- og félagsstarfi með deildarfélögum, efla þekkingu félagsmanna og stuðla að fræðslustarfi.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun.
Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)