Starfsmenntunarsjóður

Úthlutunarreglur og umsóknir

Um sjóðinn 

Stjórn sjóðsins er skipuð 6 fulltrúm, 5 sem kosnir eru á aðalfundi til þriggja ára í senn og einum tilnefndum úr stjórn SFR. Stjórn sjóðsins heldur fund einu sinni í mánuði, nema í júlí, ásamt fulltrúa frá skrifstofu SFR. Þar er fjallað um þær umsóknir sem borist hafa hverju sinni.Stjórn starfsmenntunarsjóðs setur sér úthlutunarreglur á hverjum tíma sem miðast við þarfir umsækjenda og ráðstöfunarfé sjóðsins.

Stjórn starfsmenntunarsjóðs
Arnbjörg Gunnlaugsdóttir frá Háskóla Íslands
Ólafía Lilja Sævarsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins
Páll Svavarsson frá Hafrannsóknarstofnun
Svanhildur Steinarsdóttir frá Námsmatsstofnun
Þórdís Viborg frá Vinnumálastofnun
Þórey Einarsdóttir frá Sjálfsbjargarheimilinu (tilnefnd af stjórn)

Markmiðið með starfsmenntunarsjóði er að félagsmenn geti leitað eftir fjárstuðningi vegna kostnaðar við nám sem tengist því að tileinka sér framfarir og tæknibreytingar í sínu starfi. Sömuleiðis að þeir geti nýtt sér námskeið, sem geri þeim mögulegt að taka að sér vandasamari störf en þeir gegna, og eigi ennfremur kost á endurhæfingarmenntun séu störf þeirra lögð niður vegna tækni- og/eða skipulagsbreytinga. Einnig getur félagsmaður sótt um starfsþróunarstyrk vegna fræðslu sem tengist starfsþróunaráætlun umsækjenda eða er liður í starfsþróun hans samkvæmt staðfestingu yfirmanns.

Reglur starfsmenntunarsjóðs samkvæmt 20. gr. laga SFR:

1. gr. Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Starfsmenntunarsjóður SFR. Sjóðurinn er í eigu SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Aðild að sjóðnum.
Sjóðfélagar eru allir starfsmenn ríkisins sem eru félagar í SFR, svo og starfsmenn sjálfseignarstofnana og fyrirtækja, sem eru félagar í SFR, enda hafi þau gerst formlegir aðilar að sjóðnum, og staðið skil á iðgjaldi.

3. gr. Tilgangur sjóðsins.
Tilgangur sjóðsins er að félagsmenn SFR geti sótt starfsnám og símenntun án verulegs kostnaðar. Að starfsmenn eigi, án verulegs kostnaðar, kost á námskeiðum, sem geri þeim mögulegt að taka að sér vandasamari störf en þeir gegna.
Styrkveitingar skal eingöngu veita til náms sem beinlínis taka til þess að starfsmaður sé að tileinka sér framfarir og tæknibreytingar í starfi sínu.
Ef störf eru lögð niður vegna tækni- eða skipulagsbreytinga eiga félagsmenn kost á endurmenntun, sem gefur þeim möguleika til að taka að sér önnur störf.

4. gr. Tekjur sjóðsins.
Tekjur sjóðsins eru:
a) Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.
b) Vaxtatekjur.

5. gr. Greiðslur úr sjóðnum.
Þeir, sem æskja styrks úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn. Greiðsla úr sjóðnum getur ekki átt sér stað nema að reglum um úthlutun sé fullnægt.

6. gr. Stjórn sjóðsins.
Stjórn sjóðsins skipa fimm fulltrúar kosnir á aðalfundi til þriggja ára í senn ásamt einum fulltrúa tilnefndum úr stjórn SFR. Formaður skal kjörinn af sjóðstjórn. Stjórn sjóðsins skal halda gerðarbók yfir afgreiðslur úr sjóðnum svo og annað sem varðar störf hennar.
Stjórn sjóðsins setur sér reglur um úthlutun styrkja í samræmi við tilgang sjóðsins og afgreiðslu mála. Reglur þessar skulu hljóta samþykki stjórnar SFR.
Stjórnarmönnum er ekki heimilt að sitja samfellt í stjórn lengur en þrjú kjörtímabil (9 ár).

7. gr. Rekstur sjóðsins og ávöxtun.
Skrifstofa SFR sér um daglegan rekstur sjóðsins í umboði stjórnar hans. Fé sjóðsins skal ávaxta á sem tryggastan hátt.

8. gr. Ársreikningur og endurskoðun.
Ársreikning sjóðsins skal birta með reikningum SFR og hann endurskoðaður með sama hætti og félagssjóður. Ársreikninginn skal leggja fram og afgreiða á aðalfundi með öðrum reikningum félagsins. Skýrsla yfir starfsemi sjóðsins skal fylgja skýrslu stjórnar SFR.

9. gr. Breytingar á reglum sjóðsins.
Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi SFR og fer með þær breytingar eins og um lagabreytingar væri að ræða.

Samþykktar á aðalfundi SFR 2014.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun.
Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)