Beint á leiđarkerfi vefsins

Stofnun ársins 2011

Niðurstöður úr könnuninni um valið á Stofnun ársins 2011 voru kynntar á Nordica hóteli föstudaginn 13. maí, kl. 17, en þetta er í sjötta sinn sem SFR stendur að vali á Stofnun ársins.

Sigurvegarar voru Sérstakur saksóknari í hópi stærri stofnana og Sýslumaðurinn í Vík í hópi minni stofnana. Hástökkvari ársins er Fjölbrautarskóli Snæfellinga.  

Val á Stofnun ársins og Fyrirtæki ársins er samvinnuverkefni  SFR stéttarfélags og VR. Könnunin er ein stærsta reglulega vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er hér á landi og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. VR hefur útnefnt Fyrirtæki ársins í 15 ár en SFR stendur fyrir könnuninni um Stofnun ársins nú í sjötta sinn. Framkvæmd hennar var með örlítið breyttu sniði í ár miðað við fyrri ár því fjármálaráðuneytið var nú í samstarfi við SFR stéttarfélag um val á Stofnun ársins. Þetta hafði það í för með sér að mun fleiri stofnanir tóku þátt eða rúmlega 200 stofnanir í ár í stað rúmlega 100 árið áður. Þá gátu einnig félagsmenn fleiri stéttarfélaga tekið þátt í könnuninni og mikilvægur samanburður á milli stéttarfélaga bættist í flokk niðurstaðna.

Alls fengu um 44 þúsund starfsmenn á almennum og opinberum vinnumarkaði könnunina senda í ár, en það eru mun fleiri en síðastliðin ár eins og áður var nefnt. Stofnunum er eins og áður skipt upp í stærri (með 50 eða fleiri starfsmenn) og minni stofnanir (með færri en 50 starfsmenn) og hægt er að bera saman árangur stofnana í hvorum flokki fyrir sig. Þátttakendur eru spurðir út í vinnutengda þætti eins og trúverðugleika stjórnenda, sjálfstæði í starfi, vinnuálag, vinnuskilyrði, álag og kröfur, sveigjanleika í starfi og fleira.

Hér má sjá nánari umfjöllun um könnunina, helstu niðurstöður hennar og um fyrirmyndarstofnanirnar 2010.

 


Slóđin ţín:

Kannanir SFR » Stofnun ársins » Stofnun ársins 2011